þriðjudagur, september 07, 2004

Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi

holsveikraspitalinn
Þann 10. október 1898 komu fyrstu sjúklingarnir á Holdsveikraspítalann í Laugarnesi. Holdsveikraspítalinn var gjöf dönsku Oddfellow-reglunnar til íslensku þjóðarinnar. Spítalinn var þá stærsta hús sem hafði verið reist á Íslandi­ og hann er stærsta timburhús sem nokkru sinni hefur risið hér á landi.

Holdsveikraspítalinn markar upphaf spítalabygginga á Íslandi og þar má líka rekja upphaf hjúkrunarnáms. Gjöf Oddfellow-reglunnar fylgdi sú krafa, að hjúkrun á spítalanum yrði undir stjórn fulllærðrar hjúkrunarkonu en engar hjúkrunarkonur þá til á Íslandi. Þess vegna voru fyrstu yfirhjúkrunarkonur Holdsveikraspítalans danskar og þær fluttu til landsins erlendan spítalaaga, sem var Íslendingum framandi. Strax haustið 1898 voru ráðnar stúlkur að spítalanum til aðstoðar við hjúkrunina, og þannig hófst skipulegt hjúkrunarnám á Íslandi, því síðar fóru þessar stúlkur til Danmerkur og luku hjúkrunarnámi þar.

Heimild: Ólafur Grímur Björnsson, Fréttabréf HÍ 1998

miðvikudagur, september 01, 2004

Kirkjugarður í Laugarnesi

kirkjugardur-laugarnesi
Fyrsti kirkjugarðurinn í Reykjavík var í Laugarnesi. Glögglega sést enn móta fyrir veggjum hans. Ekki mun vissa fyrir, hvenær hann var fyrst upp tekinn. Tilgátur eru um, að Hallgerður Höskuldsdóttir langbrók sé grafin þar, en talið er að hún hafi verið í Laugarnesi síðustu æviár sín.

Biskupinn yfir Íslandi sat í Laugarnesi í nokkur ár. Síðast var grafið í garðinum árið 1871. Þá voru grafnir þar 6 franskir sjómenn, sem létust úr bólusótt. Þeir lágu í einangrun í gömlu biskupsstofunni í Laugarnesi. Ekki var talið fært að jarða þá "inni í borginni" vegna hættu á smiti og því horfið að því ráði að grafa þá í gamla kirkjugarðinum í Laugarnesi.Kirkjan í Laugarnesi var rifin árið 1794 og sameinuð Reykjavíkurkirkju.

Heimild: Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastdæma www.kirkjugardar.is

Kúlan - Ásmundarsafn

kulan-asmundarsafn

Kúluhúsið og styttugarðurinn í Sigtúni eru eitt af kennileitum íLaugarneshverfinu. Þetta er Ásmundarsafn en Ásmundur Sveinsson myndhöggvari byggði húsið og bjó þar. Hann byggði húsið í áföngum á árunum 1942-1959 og er elsti hluti þess Kúlan. Formið sótti hann til hefðbundinnar húsagerðar Grikklands og Tyrklands sem hann sá sem fyrirmynd að nýju, íslensku byggingarlagi, sniðnu að sérkennum hrjóstrugs og skóglauss landslags. Að þessu leyti er húsið merkileg og einstæð tilraun í sögu íslenskrar byggingarlistar.

Heimild: Listasafn Reykjavikur http://www.listasafnreykjavikur.is/

Gömlu sundlaugarnar

gomlu-sundlaugarnar
Það var nóg af heitu vatni sem spratt upp úr jörðinni í Laugarnesi. Það var sundstaður Reykvíkinga og gömlu laugarnar voru byggðar. Sundlaugarnar gömlu voru norðan Sundlaugavegar, sem heitir eftir þeim. Þær voru lagðar niður þegar Laugardalslaugin var fullgerð árið 1966 og sjást ekki lengur.Þarna hófst sundkennsla vorið 1824. Þetta er mynd af kvennasundi í gömlu sundlaugunum árið 1909.

Þvottalaugarnar

thvottalaugar
Reykvíkingar þvoðu þvottinn sinn í gömlu þvottalaugunum í Laugardal. Það var sett grind yfir laugarnar svo að fólk félli ekki niður.