mánudagur, ágúst 20, 2007

Minningarbrot úr Laugarneshverfi

Arngrímur Vídalín skrifað á bloggið sitt minningarbrot um uppvöxt í Laugarneshverfi.
Hann leikur sér eins og ég gerði nokkrum áratugum á undan honum á Laugarnestúninu, hann er í Leynifélagi (þegar ég var barn þá var það Zorró-félagið sem var aðalleynifélagið) og hann kann nokkrar goðsögur um hverfið:
Ég held það hafi verið farið að halla undir haust 1991 þegar við Arnar og Raggi vinur hans fórum með stóran pappakassa út á túnið framanvið Listaháskólann og þóttumst vera sjóræningjar á árabát. Árarnar voru kústsköft og með þeim ýttum við okkur áfram eftir túninu, að stórum steini sem var á túninu miðju. Það var eyjan sem við ætluðum að grafa fjársjóðinn okkar á. Þegar þangað var komið áttum við þó hvorki fjársjóð til að grafa né var hægt að grafa í steininn. Minnir þó að við höfum skilið spýtustúf eftir í holu undir steininum. Síðar fór ég að vitja spýtunnar, ekki vegna notagildis hennar heldur af forvitni um hvort hún væri þar enn, en þá var hún horfin.

-------
Goðsaga ein gekk um hverfið af gamla blinda píanóleikaranum sem sagður var reka hljóðfæraverslunina við Gullteig. Jafnframt var hann sagður búa í risíbúð sama húss ásamt barnungri dóttur sinni. Allir vissu að blindi píanóleikarinn var afar góður maður þótt enginn hefði nokkru sinni séð hann. Ekki man ég fleira sem sagt var um blinda píanóleikarann, en pabbi staðfesti tilvist hans, þótt ekkert vildi hann fullyrða um dótturina. Ég man að verslunin stóð lengi enn eftir að fregnir bárust af andláti píanóleikarans. Þegar verslunin loks fór fannst mér sem enn færi æskustöðvunum hrörnandi.
-------
Önnur goðsaga sem gekk um hverfið hverfðist um rauðan blett á veggnum við bakdyrainngang Laugarnesskóla. Sagan hermdi að einhverju sinni, mögulega aðeins ári eða tveimur áður en við hófum skólagöngu okkar, hefði drengur einn þroskaheftur og ofstopamaður mikill lagt nagla upp að húsveggnum og slegið höfði minni stráks í hann, með þeim afleiðingum að hann lét lífið. Ýmsar útgáfur fóru af örlögum ofbeldismannsins, sú vinsælasta hermdi að hann sæti inni á barna- og unglingageðdeild fyrir verknaðinn. Ég veit ekki betur en bletturinn sé enn á sínum stað, en heldur veit ég ekki betur en bletturinn sé málningarsletta. Fyrir örfáum árum komst ég að því að sagan gekk enn um skólann, til þess að gera óbreytt.
----------
Þennan vetur tóku vissar hefðir að myndast sem héldust óbreyttar gegnum skólavist okkar í Laugarnesskóla: Leynifélögin. Mér helst ekki tala á því hversu mörg leynifélög voru stofnuð, held ég hafi þegar mest gekk á verið formaður þriggja. Stofnun slíkra félaga fór alltaf fram á sama máta, eftir því hvaða háttur var hafður á við stofnun þess fyrsta, sem nú verður vikið að. Ég teiknaði kort af skólasvæðinu, merkti inn hvar hinir og þessir skilgreindir „óvinir“ mínir héldu jafnan til, og samdi hernaðaráætlun inn á kortið, þ.e. hver vina minna færi að slást við hvern og eftir hvaða leiðum hann færi þangað. Svo fékk ég félagana til að samþykkja áætlunina. Hinsvegar fór það svo að áætlanirnar dóu alltaf á teikniborðinu, meðþví engri þeirra var raunverulega hrint í framkvæmd.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home