mánudagur, apríl 30, 2012

Húsakönnun

Hér er húsakönnum um hluta Laugarneshverfisins

Húsakönnun
Laugarnesvegur – Sundlaugavegur – Laugalækur –
Hrísateigur – Otrateigur

Drífa Kristín Þrastardóttir, sagnfræðingur
Guðný Gerður Gunnarsdóttir, borgarminjavörður












http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/skipulagsm_l/mal_kynningu/hagsmunadilakynningar/103637_4.pdf

Hér er hluti af textanum í þessari húsakönnun:

Saga svæðisins
Svæðið sem hér er til umfjöllunar er á því landsvæði sem áður var kallað Laugamýri eða Þvottalaugamýri og var stór mýrarfláki sunnan Laugarness og vestan Laugaráss.Laugamýri tilheyrði jörðinni Laugarnesi, sem var eitt þriggja stórbýla í Seltjarnarneshreppi hinum forna, ásamt Vík (Reykjavík) og Nesi við Seltjörn. Heimildir eru um búsetu í Laugarnesi frá því skömmu eftir landnám og kirkju frá því um 1200. Í Laugamýrinni var 13
þykkur mór sem árlega var nýttur frá Laugarnesi.

Í landi Laugarness voru einnig heitar laugar sem um langan aldur voru notaðar til þvotta og baða. Þvottalaugarnar svokölluðu voru  sem kunnugt er nokkru sunnar í Laugamýri, á því svæði sem nú er nefnt Laugardalur. Við  Þvottalaugarnar kom upp heitur lækur, Laugalækurinn, sem rann til norðvesturs á þeim  slóðum þar sem nú er samnefnd gata og féll til sjávar á Kirkjusandi, en svo kallast  strandlengjan vestan Laugamýrar, frá Rauðarárvík austur að Laugarnesi. Á nokkrum stöðum í  Laugalæknum virðast hafa verið laugar sem hentugar voru til baða. Eggert Ólafsson og Bjarni  Pálsson könnuðu laugarnar árið 1755 og segja í Ferðabók sinni frá allstórri og djúpri baðlaug  í mýrinni sunnan túns í Laugarnesi. Þangað hafi margir komið frá nágrannabæjum Laugarness  til að lauga sig, en einnig hafi sótt þessa laug farmenn úr Hólminum og starfsfólk  Innréttinganna úr Reykjavík. Úr þessari laug hafi volgur Laugalækurinn runnið og neðar í  honum hafi verið tveir eða þrír aðrir staðir sem notaðir hafi verið til baða.

Sveinn Pálsson  læknir og náttúrufræðingur kom að laugunum árið 1791 og segir frá því að nokkru neðan við  Þvottalaugarnar hafi Laugalækurinn breitt úr sér og þar hafi vatnið verið hæfilega heitt til  baða.

Á þessum stað eða nálægum slóðum kom Jón nokkur Kærnested upp sundskóla árið 1824. Hann lét gera þar fyrirhleðslu svo að dálítið lón myndaðist og þar kenndi hann piltum  sund í nokkrar vikur að vorlagi en ekki eru heimildir um frekari sundkennslu þar næstu  áratugina.


Bæjarstjórn Reykjavíkur keypti Laugarnes ásamt jörðinni Kleppi árið 1885 í því skyni
að tryggja Reykvíkingum aukið land til beitar, ræktunar og mótöku og árið 1894 voru báðar
jarðirnar lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Eftir að Laugarnes komst í eigu bæjarins var hafist handa um gerð vegar sem auðvelda átti fólki ferðir inn í Þvottalaugarnar og dregur vegurinn, Laugavegur, nafn sitt af þeim. Áður höfðu þvottakonurnar þurft að þræða götur meðfram sjónum austur úr Skuggahverfi, fara yfir Fúlutjarnarlæk (nálægt því þar sem nú eru gatnamót Kringlumýrarbrautar og Borgartúns) og þaðan yfir svonefnda Kirkjumýri, sem var bæði blaut og keldótt, til að komast að laugunum.


Um svipað leyti hófst sundkennsla á ný í laugunum en á þessum tíma hafði aukist mjög áhugi Reykvíkinga á að læra sund. Árið 1884 gekkst Björn Blöndal sundkennari fyrir því að útbúið var nýtt og stærra sundstæði í Laugalæknum, hér um bil á þeim stað þar sem nú eru gatnamót Sundlaugavegar og götunnar Laugalækjar. Lækurinn var þá stíflaður með torfgarði og bakkarnir stungnir niður svo að laugin varð nægileg breið og djúp til að hægt væri að kenna þar sund. Nýstofnað Sundfélag Reykjavíkur lét síðan betrumbæta sundstæðið
og veita nokkru af Laugalæknum utan við það til þess að vatnsmagnið í lauginni yrði hæfilegt. Seinna reisti félagið sundskýli sem stóð á stólpum í miðri lauginni en frá því lágu timburbrýr yfir að sundlaugarbökkunum.

Laug þessari og umhverfi hennar lýsti Knud Zimsen svo: „Í kringum laugina eru holt og stórgrýti, pyttir og mógrafir. Nokkru ofar eru þvottalaugar og eitthvað af óhreina vatninu úr þeim rennur í sundlaugina. Botninn á sundlauginni er fullur af leðju. Þegar strákarnir koma upp úr, eru þeir mórauðir á skrokkinn. Ef veður er gott, hlaupa þeir eins og fætur toga niður á Kirkjusand til þess að skola þar af sér í sjónum“.

Árið 1894 hóf Páll Erlingsson, bróðir Þorsteins Erlingssonar skálds, sundkennslu í lauginni og hélt þar
uppi sundkennslu allt árið um kring næstu áratugina.

Árið 1898 lét danska Oddfellowreglan reisa holdsveikraspítala í Laugarnesi sem gefinn var íslensku þjóðinni. Þá var lagður vegur frá Laugavegi (nálægt því þar sem Hátún 12 er nú) niður að Kleppsvegi (sem lá frá Laugarnesi austur að Kleppi) og var hann í upphafi nefndur Spítalavegur en fékk síðar nafnið Laugarnesvegur.

Þennan veg notaði fólk einnig þegar það gekk frá Reykjavík inn í Laugamýri til að læra þar sund, en hafði áður farið gömlu leiðina austur úr Skuggahverfi, meðfram sjónum og yfir Fúlutjarnarlæk, eins og þvottakonurnar.

Síðasti spölurinn inn í sundlaugarnar var genginn eftir mel einum austur frá Laugarnesvegi og myndaðist þar troðningur sem síðar var kenndur við sundlaugarnar og kallaður Sundlaugavegur.

Í kjölfar þess að vegarsamband komst á úr bænum inn að Laugarnesi með gerð Laugarnesvegarins varð Kirkjusandur, strandlengjan vestan vegarins, miðstöð fiskverkunar á fyrri hluta 20. aldar. Greint var á milli Innra-Kirkjusands og Ytra-Kirkjusands og voru mörkin um Fúlutjörn. Á Ytra-Kirkjusandi kom Þorsteinn (Th.) Thorsteinsson upp fiskverkunarstöð um 1900 og ári seinna setti Jes Zimsen ásamt bræðrunum Birni og Þorsteini Gunnarssonum á fót fiskverkun á Innra-Kirkjusandi, sem Íslandsfélagið tók síðar við. Félög þessi reistu þarna margvíslegar byggingar og mannvirki, þar á meðal þurrkhús, geymsluhús, þvottahús og
verbúðir fyrir verkafólkið, auk þess sem víðáttumikil stakkstæði settu svip á svæðið.

Nokkur smábýli risu umhverfis býlið í Laugarnesi og á erfðafestulöndum í nágrenni við Þvottalaugarnar fyrir 1900. Sem dæmi má nefna nýbýlið Laugaland, sem reist var við Þvottalaugarnar árið 1892 og Kirkjuból, sem Halldór Kr. Friðriksson menntaskólakennaribyggði árið 1898 á erfðafestulandi sínu rétt vestan vegarins sem þá var nýlagður að Laugarnesspítala. Útdeiling erfðafestulóða úr landi Reykjavíkur hófst árið 1859 er lóðum næst þéttbýlinu í Kvosinni var úthlutað til ræktunar, en færðist svo að útjöðrum bæjarlandsins, eftir
því sem það stækkaði. Markmiðið með útdeilingu erfðafestulanda var að gefa bæjarbúum kost á landi til ræktunar. Einkum voru mýrarnar vinsælar, þar sem holtin voru grýtt og melarnir harðir. Blettirnir voru afhentir til eignar gegn árlegri leigu, en erfðafestuhafar voru þó skyldaðir til að láta af hendi byggingarlóðir úr erfðafestulöndum sínum, ef á þyrfti að halda.

Eftir 1900 fjölgaði mjög ört hinum svokölluðu nýbýlum, sem reist voru á erfðafestulöndum
.........................

Árið 1910 ákvað bæjarstjórnin að úthluta til efnalítils fólks erfðafestulöndum í Kirkjumýri og Laugamýri, á svæðinu milli vegarins að Þvottalaugum og Laugarnesvegar, niður að Laugalæk. Árið 1909 hafði réttur bæjarins til byggingarlóða gagnvart handhöfum erfðafestulanda verið aukinn, en Reykjavík var um þær mundir í mjög örum vexti. Handhafar erfðafestulandanna í Kirkjumýri og Laugamýri fengu því úthlutað samkvæmt nýju skilmálunum frá 1909. Á 2. áratugnum reis svo hvert smábýlið á fætur öðru í Kirkjumýri og sunnanverðri Laugamýri og voru þar ræktuð upp lönd sem áður voru mýrar. Upp úr 1918 var einnig byrjað að framræsa í stórum stíl mýrlendi í bæjarlandi Reykjavíkur og var þá byrjað í nágrenni Þvottalauganna og í Laugamýri. Þar bættist við fjöldi nýbýla á 3. áratugnum og var Laugardalurinn brátt alsettur þeim.

Eitt af þessum býlum byggðu bræðurnir Jón Þórðarson kaupmaður og Þórður bóndi í
Laugarnesi á landi sem þeir fengu til ræktunar rétt austan við Laugalæk árið 1901.
Norðmaðurinn Emil Rokstad eignaðist síðan landið árið 1910 og byggði þar hús sem hann
flutti tilsniðið frá heimalandi sínu og kallaði Bjarmaland. Það stóð rétt norðaustan við brúna
sem lá yfir Laugalæk þar sem Laugarnesvegur sveigði í átt að Laugarnesi og nú eru gatnamót
Laugarnesvegar og Laugalækjar. Emil Rokstad eignaðist nokkurt landsvæði á erfðafestu
beggja vegna Laugalækjarins og varð einn helsti athafnamaður á þessum slóðum. Árið 1919
byggði hann timburhús nokkru sunnar í landinu, á austurbakka Laugalækjarins, þar sem hann
setti upp Sápugerðina Seros ásamt bræðrunum Sigurjóni og Einari Péturssonum. Þar var
framleidd blautsápa, stangasápa, sápuspænir, gólfvax, vagnáburður og ullarolía. Árið 1923 var
búið að breyta þessu húsi í íbúðarhús eða gera það að viðbyggingu við íbúðarhús og eftir það
var það kallað Sólbakki. Það stóð vestan götu við Laugalæk allt fram til ársins 1979 þegar það
var látið víkja fyrir raðhúsinu nr. 10–20 við Laugalæk.
40

Annað nýbýli sem reist var á þessum slóðum á 2. áratugi aldarinnar er Bjarg, sem
áðurnefndur Páll Erlingsson sundkennari reisti ásamt syni sínum Erlingi Pálssyni
yfirlögregluþjóni. Páll var einn þeirra sem fengu úthlutað landi úr Kirkjumýri árið 1910 og
fékk þá á erfðafestu Kirkjumýrarblett XII, rétt vestan sundlauganna og Laugalækjar. Hann
hefur eflaust tekið fljótlega til við að rækta landið eins og áskilið var í erfðafestusamningum,
en íbúðarhús reistu þeir feðgar fyrst á landinu á árunum 1917–1921. Það hús stendur stendur
enn á lóð sinni norðan Sundlaugavegar og er nú skráð nr. 37 við götuna. Páll eftirlét Erlingi
syni sínum Bjarg á 3. áratugnum og byggði sér og konu sinni hús austan Laugaráss. Heyhlaða
og lítið fjós sem Erlingur byggði á lóðinni árið 1924 og stærra fjós með heyhúsi og básum
fyrir 11 nautgripi, sem hann byggði árið 1927, stóðu í sambyggðri röð rétt norðan við
íbúðarhúsið, hér um bil þar sem nú eru raðhúsin nr. 29–35 við Sundlaugaveg. Norðan
útihúsanna var sporöskjulagaður blettur þar sem Sigríður Sigurðardóttir, kona Erlings, ræktaði
trjágarð.


Páll kenndi sund í sundlaugunum við Laugalæk allt til ársins 1921 og í tíð hans, á
árunum 1906–1908, var byggð ný og stærri laug í stað þeirrar gömlu, á sama stað við  Laugalækinn eða eilítið norðar (sjá kort bls. 18). Sú laug var með veggjum hlöðnum úr
steinlímdu grjóti og steinsteypubotni. Settur var upp timburveggur í kringum hana og 17
búningsklefar byggðir að norðan- og vestanverðu, brú yfir hana miðja og gangpallar utan með
henni. Vatn var leitt í laugina um opinn tréstokk úr stíflu sem var gerð í Laugalækinn 30 til 40
metrum ofan við laugina. Eftir að aðsókn jókst í Þvottalaugarnar með aukinni fólksfjölgun
skoluðust æ meiri óhreinindi í lónið og þaðan í laugina og það, ásamt kröfu um hæfilega heitt
vatn, varð til þess að eftir 1910 var heitt vatn leitt í laugina í pípum innan úr Þvottalaugum. Í
þessari laug hóf Ingibjörg Guðbrandsdóttir sundkennslu árið 1908, fyrst íslenskra kvenna, og
kenndi bæði fullorðnum konum og barnaskólastúlkum, en fram að því hafði sundkennsla
einungis verið ætluð körlum. Erlingur Pálsson kenndi þarna sund með föður sínum frá unga
aldri en hætti því þegar hann gekk í lögregluna, en bræður hans Jón og Ólafur, kenndu áfram
með föður sínum og tóku við starfi hans árið 1921. Gömlu sundlaugarnar við Laugalæk voru í
notkun allt til um 1968 og var sundlaugin sem notuð var allan þann tíma að grunni til sú sama
og byggð var á árunum 1906–1908, þó að endurbætur hafi verið gerðar á búningsklefum,
böðum og salernum við laugina, til dæmis árið 1936.

Þeir sem byggðu smábýli á erfðafestulöndum eins og í Kirkjumýri og Laugamýri nutu
þess að geta haft dálítinn búskap utan meginbyggðarinnar og áttu margir kýr og hænsni en
gátu jafnframt sótt venjulega launavinnu til bæjarins. Sigurður A. Magnússon rithöfundur
lýsir aðstæðum og umhverfi byggðarinnar í Kirkjumýri og Laugamýri á uppvaxtarárum sínum
á 3. áratugnum:
Þó byggðin væri hluti af höfuðstaðnum lá hún utanvið hann og naut þannig kosta þéttbýlis
jafnt og strjálbýlis án þess að búa við ókostina. Hún var umlukin velræktuðum túnum sem
teygðu sig til allra átta milli ævintýralegra holta með björgum, dældum, lindum og litlum
grasblettum. ... Býli voru mörg og misstór. ... Við Laugarnesveg stóðu býlin Kirkjuból við suðurenda byggðarinar, Bjarmaland hjá bugðunni við brúna og Laugarnes þar sem hann
tengdist Kleppsvegi Á tanganum fyrir neðan Laugarnesbýlið stóð hátimbruð bygging
Holdsveikraspítalans.
46
Á síðari hluta 3. áratugarins myndaðist fyrsti vísir að þorpi á þessu svæði þegar farið
var að úthluta byggingarlóðum við Laugarnesveginn. Á þeim tíma var gríðarlegur skortur á
íbúðarhúsnæði í Reykjavík. Ástæður þess voru takmarkaður innflutningur á byggingarefni
undir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og síaukinn aðflutningur fólks til bæjarins. Á þessum
árum var allt vöruverð mjög hátt og jafnframt ómögulegt að fá veðdeildarlán til húsbygginga.
Þetta leiddi til þess að efnaminna fólk lenti í basli við að koma sér upp húsnæði og þurfti að
láta sér nægja mjög lítil íbúðarhús og húskofa á baklóðum. Þá leitaði fólk í auknum mæli út
fyrir bæinn, eins og sýndi sig í aukinni ásókn í erfðafestulöndin. Bæjaryfirvöld brugðust
meðal annars við vandanum með því hefja úthlutun ódýrari lóða rétt utan bæjarins og þá var
svæðið við Laugarnesveg tilvalið, þar sem nokkur atvinnustarfsemi hafði byggst upp í næsta
nágrenni og beint vegarsamband var inn í bæinn. Lóðirnar sem úthlutað var við Laugarnesveg
á þessum tíma voru allar austan götunnar og á árunum 1926 til 1929 reis meðfram henni röð
húsa, sem flest voru lítil steinhús.
47

Strákar í Laugarnesi


Í minningargrein  sem Jón Dan skrifar er brugðið upp myndum af lífi barna í Laugarnesi í kringum 1920.  Jón Dan skrifar um æskufélaga sinn Jóhann Guðmundsson (Sonna)sem elst upp á Bjarmalandi í Laugarnesi hjá ömmu sinni Ingunni Einarsdóttur . Dóttir Ingunnar og tengdasonur voru Jóhanna og Emil Rokstad:
"Heimur okkar þarna fyrir innan Laugalæk var einstakur, byggðin strjál og bar um margt keim af sveit þó hún tilheyrði Reykjavík. Nyrst var Laugarnes og niðri á Laugarnestöngum Holdsveikraspítalinn, þá Innri Kirkjusandur og syðst Bjarmaland. Laugalækurinn rann um Bjarmalandstúnið og handan hans var Sólbakki. Þar bjuggu foreldrar Sonna, Þóra Jóhannsdóttir og Guðmundur Sigurðsson, með yngri systur hans, Kristínu.Bjarmaland stóð á horninu þar sem Laugarnesvegur og Laugalækur mætast, sennilega þar sem er húsið númer 74a við Laugarnesveg. Sólbakki var nokkru austar. Íbúðarhúsið á Innri Sandi stendur enn í krikanum þar sem Sæbrautin sveigir frá sjónum og tekur stefnu í norðaustur.Umhverfið var fallegt eins og þeir geta séð sem ganga út á Laugarnestanga: Jökullinn handan flóans og Reykjavík upplýst á dimmum kvöldum. En í kyrru veðri og kulda hékk mökkur yfir borginni eins og hattur. Það var kolareykur úr hundruðum strompa.Holdsveikraspítalinn stóð spölkorn fyrir norðan íbúðarhúsið á Innri Sandi í iðjagrænu túni. Vegurinn þaðan lá um hlaðið á Sandinum og margir sjúklingar urðu málkunnugir okkur strákunum. Og sumir meira en það. Aðrir utangarðsmenn fóru líka um hlað. Það voru vistmenn á Kleppi, karlar sem véku sér að okkur og töluðu í glettnistóni, brosmildir þar til þeir sáu feimni okkar og jafnvel ugg. Þá drógu þeir sig inn í skel og héldu leiðar sinnar.En það voru að sjálfsögðu ekki aðeins sjúklingar sem áttu leið um hlað á Sandinum. Einkum er mér minnisstætt fólk í glæsilegum, lokuðum hestvagni sem tveir fallegir hestar drógu. Það var Þórður yfirlæknir á Kleppi og fjölskylda hans. Í gegnum gluggana á vagninum sáum við prúðbúin börn og fullorðna. Ég held það hafi verið einu skiptin sem mér fannst mórauða peysan mín upplituð og slitin og hjólbarðaskórnir nokkuð rosabullulegir......Tíminn leið hratt á þessum árum. Á hverjum degi að heita má var farið í sundlaugar og oft svamlað þar til við vorum reknir upp úr. ..........Værum við strákarnir ekki að dindlast í fiskbreiðslu biðum við eftir aðfallinu. Á flóðinu var staðið á bólverkinu á Sandinum og veiddur ufsi eða koli. Einkum var mikið um fisk ef svo hittist á að hátt væri í sjó þegar hleypt var úr vaskakörunum. Þá var um að gera að krækja fljótt í marhnút og nota lifrina úr honum til beitu. Veiðin var alltaf höfð til kvöldverðar og var á Sandinum kærkomin uppbót á allan saltfiskinn sem annars var daglegur matur um hádegið. ..........Innri Kirkjusandur var fiskverkunarstöð. Þar vorum við tveir strákar innan um fjörutíu stúlkur. Þær sváfu þar og höfðu morgunverð (hafragraut) og hádegisverð (saltfisk) frían. Þær voru kjarninn í vinnuaflinu en auk þeirra unnu tugir kvenna og unglinga á fiskreitunum þegat breitt var. ...........................Dag einn urðum við þess varir að sjúklingum á Holdsveikraspítalanum hafði fjölgað um einn strák. Sigurður Kristófer Pétursson, sá sem skrifaði Hrynjandi íslenskrar tungu, kom dag einn og leiddi dreng sér við hönd. Sigurður var sjúklingur á spítalanum. Þetta hlýtur að hafa verið 1923 eða 1924.Við vorum að leika okkur á spítalatúninu. Þeir námu staðar og Sigurður tók okkur tali. Hann sagði eitthvað á þá leið að þessi strákur héti Gunnar, hvort hann mætti ekki leika sér við okkur. Engin hætta væri á að við yrðum veikir af honum.  
Sonni sagði hátt og skýrt já. Honum datt ekki í hug að ráðfæra sig við okkur, hvorki með orðum né augnaráði. Enda var það óþarfi. Hvorugur okkar hefði hreyft mótbárum við ákvörðun Sonna. Gunnar var tekinn í gengið og mætti til leiks í eitt eða tvö sumur. Hann glímdi við okkur og veiddi með okkur en fór ekki í laugar eða lengri leiðangra. Ég held okkur hafi aldrei tekist að umgangast hann sem jafningja. En því olli ekki sjúkleiki hans, öllu heldur málfarið. Hann var að norðan og talaði harða norðlensku sem lét okkur linmæltum Sunnlendingum spánskt í eyrum.
Svo hætti hann að koma. Ég man ekki hvort spurt var um ástæðuna en mér þykir ekki ólíklegt að veikin hafi tekið nýja stefnu. Um sama leyti dó Sigurður Kristófer Pétursson (í ágúst 1925) og hefur drengurinn þar misst mikils. Gestur Þorgrímsson segir mér að Gunnar hafi dáið ungur maður.


http://mbl.is/greinasafn/grein/104562/

mánudagur, ágúst 20, 2007

Dularfullt barnshvarf í Laugarneshverfi

Veturinn 1970-71 var hafin leit að 2 ára barni í miklum norðangarra í Laugarneshverfi. Fólk á svæðinu var beðið í fjölmiðlum að aðgæta öll útihús/kjallara/bílskúra og aðra staði, sem barnið gæti leynst á. Lík barnsins fannst nokkrum mánuðum seinna í Akurey. Stígvél barnsins höfðu áður fundust rétt við fjöruborðið í Laugarnesi.

Sögusagnir eru um að haförn hafi hremmt barnið og flogið með það út í Akurey.

Minningarbrot úr Laugarneshverfi

Arngrímur Vídalín skrifað á bloggið sitt minningarbrot um uppvöxt í Laugarneshverfi.
Hann leikur sér eins og ég gerði nokkrum áratugum á undan honum á Laugarnestúninu, hann er í Leynifélagi (þegar ég var barn þá var það Zorró-félagið sem var aðalleynifélagið) og hann kann nokkrar goðsögur um hverfið:
Ég held það hafi verið farið að halla undir haust 1991 þegar við Arnar og Raggi vinur hans fórum með stóran pappakassa út á túnið framanvið Listaháskólann og þóttumst vera sjóræningjar á árabát. Árarnar voru kústsköft og með þeim ýttum við okkur áfram eftir túninu, að stórum steini sem var á túninu miðju. Það var eyjan sem við ætluðum að grafa fjársjóðinn okkar á. Þegar þangað var komið áttum við þó hvorki fjársjóð til að grafa né var hægt að grafa í steininn. Minnir þó að við höfum skilið spýtustúf eftir í holu undir steininum. Síðar fór ég að vitja spýtunnar, ekki vegna notagildis hennar heldur af forvitni um hvort hún væri þar enn, en þá var hún horfin.

-------
Goðsaga ein gekk um hverfið af gamla blinda píanóleikaranum sem sagður var reka hljóðfæraverslunina við Gullteig. Jafnframt var hann sagður búa í risíbúð sama húss ásamt barnungri dóttur sinni. Allir vissu að blindi píanóleikarinn var afar góður maður þótt enginn hefði nokkru sinni séð hann. Ekki man ég fleira sem sagt var um blinda píanóleikarann, en pabbi staðfesti tilvist hans, þótt ekkert vildi hann fullyrða um dótturina. Ég man að verslunin stóð lengi enn eftir að fregnir bárust af andláti píanóleikarans. Þegar verslunin loks fór fannst mér sem enn færi æskustöðvunum hrörnandi.
-------
Önnur goðsaga sem gekk um hverfið hverfðist um rauðan blett á veggnum við bakdyrainngang Laugarnesskóla. Sagan hermdi að einhverju sinni, mögulega aðeins ári eða tveimur áður en við hófum skólagöngu okkar, hefði drengur einn þroskaheftur og ofstopamaður mikill lagt nagla upp að húsveggnum og slegið höfði minni stráks í hann, með þeim afleiðingum að hann lét lífið. Ýmsar útgáfur fóru af örlögum ofbeldismannsins, sú vinsælasta hermdi að hann sæti inni á barna- og unglingageðdeild fyrir verknaðinn. Ég veit ekki betur en bletturinn sé enn á sínum stað, en heldur veit ég ekki betur en bletturinn sé málningarsletta. Fyrir örfáum árum komst ég að því að sagan gekk enn um skólann, til þess að gera óbreytt.
----------
Þennan vetur tóku vissar hefðir að myndast sem héldust óbreyttar gegnum skólavist okkar í Laugarnesskóla: Leynifélögin. Mér helst ekki tala á því hversu mörg leynifélög voru stofnuð, held ég hafi þegar mest gekk á verið formaður þriggja. Stofnun slíkra félaga fór alltaf fram á sama máta, eftir því hvaða háttur var hafður á við stofnun þess fyrsta, sem nú verður vikið að. Ég teiknaði kort af skólasvæðinu, merkti inn hvar hinir og þessir skilgreindir „óvinir“ mínir héldu jafnan til, og samdi hernaðaráætlun inn á kortið, þ.e. hver vina minna færi að slást við hvern og eftir hvaða leiðum hann færi þangað. Svo fékk ég félagana til að samþykkja áætlunina. Hinsvegar fór það svo að áætlanirnar dóu alltaf á teikniborðinu, meðþví engri þeirra var raunverulega hrint í framkvæmd.

laugardagur, febrúar 24, 2007

Hér er síld við síld, á sjónum engin hvíld


Síldarþró við Stýrimannaskólann
Salvor setti inn þessa mynd.

Hérna er síldarþró við Stýrimannaskólann í kringum 1948 en þá veiddist svo mikil síld að það var vandamál að geyma hana.

Kirkjusandur - fiskvinnsla árið 1952


Kirkjusandur - fiskvinnsla 1952
Salvor setti inn þessa mynd.

Frystihús var rekið á Kirkjusandi. Hér er mynd sem var tekin árið 1952. Þegar ég var barn í Laugarnesi þá var frystihúsið nefnt hjá Júpiter og Mars.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Fiskvinnsla á Kirkjusandi 1910-1920


Fiskvinnsla á Kirkjusandi 1910-1920
Salvor setti inn þessa mynd.

Hér er dæmi um hvernig maður sendir mynd. ég er að sýna nemendum hérna í tíma í Kennó.

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Guðrún Einarsdóttir eigandi Laugarness


laugarnes-gudrun-biskupsekkja
Salvor setti inn þessa mynd.

Guðrún Einarsdóttir, ekkja Jón Árnasonar(1665-1743) átti Laugarnes. Varðveitt er bréf þar sem Guðrún lýsir því yfir að Laugarnes sé hennar eign og öll landnýting þar sé óheimil nema með hennar samþykki.

Laugarnes var bændabýli þangað til árið 1885 þegar það var sameinað kaupstaðnum Reykjavík. Guðrún Einarsdóttir var dóttir Einar Þorsteinssonar Skálholtsbiskups. Hún giftist Jóni Árnason biskup árið 1703 þá 37 ára að aldri.
(BskjR: Laugarnesskjöl, landamerkjalýsingar og vitnisburðir: 1605-1884, aðfnr. 1359. )

Hver átti rekann á Kirkjusandi?

Í Oddgeirsmáldaga frá árinu 1379 segir m.a.:
"Jónskirkja í Vík á land allt að Seli, landsælding og selalátur í Örfirisey, sælding í Akurey, rekann allan á Kirkjusandi, fjórðung reka móts við Nes, Engey og Laugarnes utan Seltjörn og Laugarlæk. Víkurholt með skóg og selstöðu."
Jónskirkja í Vík er undanfari Dómkirkjunnar í Reykjavík og það getur verið að örnefnið Kirkjusandur sé kennt við Jónskirkju fremur en kirkjuna í Laugarnesi. Á þessum tíma hafa landkostir og nytjar verið öðruvísi en núna, það hefur verið selalátur í Örfirisey og orðin sældingur og landsældingur tákna land, sem tekur eitt sáld, þ.e. um 100 kg útsæðiskorns. Það hefur því verið kornyrkja í eyjunum Akurey og Örfirisey við Reykjavík. Víkurholt er talið annað hvort Skólavörðuholtið eða Öskjuhlíðin.

Heimild:
Saga Dómkirkjunnar

þriðjudagur, maí 23, 2006

Myndverk Jóhanns Bríems í Laugarnesskóla


xIMG_0099, Salvor setti inn þessa mynd.

Jóhann Bríem listmálari var lengi teiknikennari við Laugarnesskólann. Haustið 1944 réð borgarstjóri Bjarni Benediktsson Jóhann til að skreyta forsal skólans með
veggmyndum. Jóhann var nokkur ár að mála myndirnar og eru sumar þeirra af börnum að leik í Laugarnesi

Sveitabúskapur í Laugarnesi


xIMG_0157, Salvor setti inn þessa mynd.

Síðasti bóndinn í Laugarneshverfinu var Sigurður Ólafsson söngvari. Bærinn hans var í daglegu tali kenndur við hann og kallaður hjá Sigga Óla. Þuríður dóttir hans skrifaði þessa frásögn um Tjörulömbin í skólablað Laugarnesskólans.

Það kemur fram í frásögninni hvernig hverfið breytist og erfiðara verður með búskap það.

Laugarnesskóli í maí 2006


xlaugarnesskoli-mai2006-samsett
Salvor setti þessa mynd inn.

Mikil afmælishátíð var haldin í Laugarnesskóla í maí 2006 en skólinn á 70 ára afmæli. Laugarnesskóli er grunnskóli í Reykjavík. Skólinn stendur við Kirkjuteig. Það er kennt í mörgum færanlegum kennslustofum en nú er nýbygging í smíðum.

mánudagur, janúar 03, 2005

Laugarneshverfi skipulagt 1954

laugarneshverfi-skipulag
Þann 16. janúar 1954 birtist í Morgunblaðinu grein um skipulagsmál í Reykjavík. Það fylgir með greininni skipulagsuppdráttur af efri hluta Laugarneshverfis sem þá er óbyggður þ.e. fjölbýlishúsum við Laugarnesveg og Kleppsveg og húsin á Lækjunum.
Í greininni stendur þetta um Laugarneshverfið:

"Til upplýsingar umskipulagningu einstaks hverfis, má nefna Laugarneshverfið. Á sínum tíma var það hverfi skipulagt og byggt að hálfu, en nú hefur hinn hlutinn verið skipulagður og fylgir mynd af honum með þessari grein.Þar eru skipulagðar götur, leikvellir og lóðir, ýmist fyrirfjölbýlishús eða smærri hús, einlyft eða tvílyft. Í miðju hverfinu er gert ráð fyrir allstóru hverfi, sem verði verzlunarhverfi eða eins konar "miðbær" svæðisins. Auk aðalverzlunarsvæðisins er svo gert ráð fyrir smærri verzlunum á víð og dreif, þar sem húsmæður geti keypt daglegar nauðsynjar á einum stað. Síðan er gert ráð fyrir opinberum byggingum, svo sem barnaskóla, en hugsað er, að sá barnaskóli, sem nú er, verði gagnfræðaskóli fyrir nokkuð stærra svæði. Síðan er hugsað fyrir leikvöllum og leikskóla og fleiru, sem er til almenningsnota.Kirkja er þegar byggð á eldri hluta svæðisins. Í næsta námunda við hverfið kemur svo hið opna íþróttasvæði í Laugardalnum, leikvangur,sundlaug o.fl."

Á árum eftir 1954 verður seinni hluti Laugarneshverfisins helsta nýbyggingarsvæðið og úthverfið í Reykjavík, svona eins og Grafarholtið er í dag. Ungt barnafólk í Reykjavík reyndi hvað það gat að koma sér upp íbúð því húsnæðisskortur var mikill. Foreldrar mínir voru í þeim hópi og fluttu í nýbyggða íbúð á Laugarnesveg 100 í kringum 1958. Sú blokk var alltaf kölluð Gula blokkin og næsta blokk fyrir ofan var kölluð Græna blokkin. Blokkin fyrir neðan var steinuð og var ekki kennd við lit, hún var alltaf kölluð Kommablokkin.