mánudagur, apríl 30, 2012

Strákar í Laugarnesi


Í minningargrein  sem Jón Dan skrifar er brugðið upp myndum af lífi barna í Laugarnesi í kringum 1920.  Jón Dan skrifar um æskufélaga sinn Jóhann Guðmundsson (Sonna)sem elst upp á Bjarmalandi í Laugarnesi hjá ömmu sinni Ingunni Einarsdóttur . Dóttir Ingunnar og tengdasonur voru Jóhanna og Emil Rokstad:
"Heimur okkar þarna fyrir innan Laugalæk var einstakur, byggðin strjál og bar um margt keim af sveit þó hún tilheyrði Reykjavík. Nyrst var Laugarnes og niðri á Laugarnestöngum Holdsveikraspítalinn, þá Innri Kirkjusandur og syðst Bjarmaland. Laugalækurinn rann um Bjarmalandstúnið og handan hans var Sólbakki. Þar bjuggu foreldrar Sonna, Þóra Jóhannsdóttir og Guðmundur Sigurðsson, með yngri systur hans, Kristínu.Bjarmaland stóð á horninu þar sem Laugarnesvegur og Laugalækur mætast, sennilega þar sem er húsið númer 74a við Laugarnesveg. Sólbakki var nokkru austar. Íbúðarhúsið á Innri Sandi stendur enn í krikanum þar sem Sæbrautin sveigir frá sjónum og tekur stefnu í norðaustur.Umhverfið var fallegt eins og þeir geta séð sem ganga út á Laugarnestanga: Jökullinn handan flóans og Reykjavík upplýst á dimmum kvöldum. En í kyrru veðri og kulda hékk mökkur yfir borginni eins og hattur. Það var kolareykur úr hundruðum strompa.Holdsveikraspítalinn stóð spölkorn fyrir norðan íbúðarhúsið á Innri Sandi í iðjagrænu túni. Vegurinn þaðan lá um hlaðið á Sandinum og margir sjúklingar urðu málkunnugir okkur strákunum. Og sumir meira en það. Aðrir utangarðsmenn fóru líka um hlað. Það voru vistmenn á Kleppi, karlar sem véku sér að okkur og töluðu í glettnistóni, brosmildir þar til þeir sáu feimni okkar og jafnvel ugg. Þá drógu þeir sig inn í skel og héldu leiðar sinnar.En það voru að sjálfsögðu ekki aðeins sjúklingar sem áttu leið um hlað á Sandinum. Einkum er mér minnisstætt fólk í glæsilegum, lokuðum hestvagni sem tveir fallegir hestar drógu. Það var Þórður yfirlæknir á Kleppi og fjölskylda hans. Í gegnum gluggana á vagninum sáum við prúðbúin börn og fullorðna. Ég held það hafi verið einu skiptin sem mér fannst mórauða peysan mín upplituð og slitin og hjólbarðaskórnir nokkuð rosabullulegir......Tíminn leið hratt á þessum árum. Á hverjum degi að heita má var farið í sundlaugar og oft svamlað þar til við vorum reknir upp úr. ..........Værum við strákarnir ekki að dindlast í fiskbreiðslu biðum við eftir aðfallinu. Á flóðinu var staðið á bólverkinu á Sandinum og veiddur ufsi eða koli. Einkum var mikið um fisk ef svo hittist á að hátt væri í sjó þegar hleypt var úr vaskakörunum. Þá var um að gera að krækja fljótt í marhnút og nota lifrina úr honum til beitu. Veiðin var alltaf höfð til kvöldverðar og var á Sandinum kærkomin uppbót á allan saltfiskinn sem annars var daglegur matur um hádegið. ..........Innri Kirkjusandur var fiskverkunarstöð. Þar vorum við tveir strákar innan um fjörutíu stúlkur. Þær sváfu þar og höfðu morgunverð (hafragraut) og hádegisverð (saltfisk) frían. Þær voru kjarninn í vinnuaflinu en auk þeirra unnu tugir kvenna og unglinga á fiskreitunum þegat breitt var. ...........................Dag einn urðum við þess varir að sjúklingum á Holdsveikraspítalanum hafði fjölgað um einn strák. Sigurður Kristófer Pétursson, sá sem skrifaði Hrynjandi íslenskrar tungu, kom dag einn og leiddi dreng sér við hönd. Sigurður var sjúklingur á spítalanum. Þetta hlýtur að hafa verið 1923 eða 1924.Við vorum að leika okkur á spítalatúninu. Þeir námu staðar og Sigurður tók okkur tali. Hann sagði eitthvað á þá leið að þessi strákur héti Gunnar, hvort hann mætti ekki leika sér við okkur. Engin hætta væri á að við yrðum veikir af honum.  
Sonni sagði hátt og skýrt já. Honum datt ekki í hug að ráðfæra sig við okkur, hvorki með orðum né augnaráði. Enda var það óþarfi. Hvorugur okkar hefði hreyft mótbárum við ákvörðun Sonna. Gunnar var tekinn í gengið og mætti til leiks í eitt eða tvö sumur. Hann glímdi við okkur og veiddi með okkur en fór ekki í laugar eða lengri leiðangra. Ég held okkur hafi aldrei tekist að umgangast hann sem jafningja. En því olli ekki sjúkleiki hans, öllu heldur málfarið. Hann var að norðan og talaði harða norðlensku sem lét okkur linmæltum Sunnlendingum spánskt í eyrum.
Svo hætti hann að koma. Ég man ekki hvort spurt var um ástæðuna en mér þykir ekki ólíklegt að veikin hafi tekið nýja stefnu. Um sama leyti dó Sigurður Kristófer Pétursson (í ágúst 1925) og hefur drengurinn þar misst mikils. Gestur Þorgrímsson segir mér að Gunnar hafi dáið ungur maður.


http://mbl.is/greinasafn/grein/104562/

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home